Stuðningsyfirlýsing í fáum orðum

Hildur Lilliendahl er vinkona mín. Hún hefur sagt ýmislegt um dagana. Sumt af því var henni ekki sæmandi. Hvorki persónunni sem ég þekki hana sem, né persónunni sem ég veit að hún vill vera. Hildur Lilliendahl er jafn breysk og við hin. Ég veit það. Hún veit það. Og nú vitið þið það. Það breytir því ekki að hún hefur oftar en ekki farið með fullkomlega réttmæta gagnrýni á menn og málefni í gegnum tíðina. Og. Ég þekki engan sem hefur tekið við jafn miklum skít fyrir að standa vörð um eigin skoðanir og hún. Það finnst mér bæði virðingarvert og rétt að hafa í huga.

Páll Hilmarsson er líka vinur minn. Hann hefur líka látið ýmisleg sér um munn fara. Ég þekki Pál eigi að síður af því að vera réttsýnn maður sem vill öðru fremur gera samferðamönnum sínum gott. Ég óska ykkur hinum þess að þið hafið kynnst því af eigin raun að eiga jafn traustan vin og Páll hefur reynst mér.

Ég hef sagt fávitalega og illa ígrundaða hluti í gegnum tíðina. Vonandi er sem minnst af því gúgglanlegt á internetinu. Það á held ég við um okkur flest. Ég ætla ekki að reyna að bera í bætifláka fyrir það sem ég hef sagt. Í flestum, ef ekki öllum tilfellum var það heimskulegt og óréttlátt. Ég ætla heldur ekki að reyna að bera í bætifláka fyrir Hildi eða Pál. Þau eiga sína fortíð alveg eins og ég á mína.

En eitt veit ég. Bæði Páll og Hildur hafa beðist afsökunar á orðum sínum, og mér dettur ekki í hug að efast um einlægni þeirrar afsökunar. Og annað veit ég. Þótt Hildur hafi sagt eitt og annað um menn og málefni, konur og karlrembur, þá breytir það í engu því sem aðrir hafa sagt um konur og karlrembur, eða menn og málefni.